26. september 2018

Sumarverkefni Eims á lokasprettinum

Í sumar hefur Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir starfað hjá Eim í sérverkefnum. Nú líður að lokum verksins og verður afraksturinn, skýrsla um þjóðhagslegan ávinning NA-lands af náttúruauðlindum, kynntur opinberlega síðar í vetur.

Gunnlaug Helga útskrifaðist úr Háskólanum á Akureyri síðastlið vor með BS-gráðu í sjávarútvegsfræðum. Lokaverkefni hennar snerist um möguleika til seiðaeldis í Ólafsfirði þar sem hún er fædd og uppalin. Verkefni hennar sem sumarstarfsmaður Eims snérust um að safna saman upplýsingum um nýtingu náttúruauðlinda svæðisins með sérstaka áherslu á jarðvarma og ferskvatn. Þær upplýsingar voru nýttar til að meta þjóðhagslegan ávinning, eða sparnað, íbúa á NA-landi af auðlindunum. Niðurstöðunum hefur verið safnað saman og settar fram í skýrslu sem nú er á lokametrunum. Auk þess að gefa skýrari mynd af notkun auðlindanna kom ýmislegt áhugavert í ljós við grufl sumarsins, t.d. að jarðhitinn sparar heimilum á NA-landi 8 milljarða á ári í húshitunarkostnað. Einnig sást áhugaverður munur á ferskvatnsnotkun á mann á milli nágrannasveitarfélaganna Norðurþings og Tjörnesshrepps. Á meðan Tjörnesingar nota 142 lítra hver á dag þá notar hver íbúi Norðurþings 22.000 lítra daglega. Þó draga mætti þá ályktun að íbúar Norðurþings séu með alla kaldavatnskrana stöðugt opna þá er það ekki svo, heldur fer vatnið að langstærstum hluta í landeldi á fiski við Húsavík og í Öxarfirði. 

Gunnlaug Helga leggur nú lokahönd á skýrslu þar sem afrakstur sumarvinnunnar kemur fram. Þegar þeirri vinnu er lokið verður niðurstaðan kynnt almenningi og skýrslan birt hér á heimasíðunni. 


Deila frétt

17. október 2025
Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða (Nánari dagskrá verður birt þegar nær dregur) Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna
30. september 2025
Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.
11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi