Fara í efni

Nýstárleg tækni vatnshreinsikerfa - Eimur á IFAT

Nýstárleg tækni vatnshreinsikerfa - Eimur á IFAT

Karen Mist, verkefnastjóri sótti IFAT í maí sl.
Karen Mist, verkefnastjóri sótti IFAT í maí sl.

Karen Mist Kristjánsdóttir, verkefnastjóri hjá Eimi tók nýlega þátt í hinni virtu IFAT ráðstefnu og vörusýningu í Þýskalandi. IFAT, sem er ein stærsta alþjóðlega sýningin á sviði umhverfis- og vatnsstjórnunar í heimi, er haldin annað hvert árt og er vettvangur fyrir fjölbreytt úrval af sýnendum, nýjustu tækni, og fræðsluviðburðum sem miða að því að bæta umhverfis- og vatnsstjórnun um allan heim.

Viðburðurinn var haldinn dagana 13.-17. maí sl. í Messe München, þar sem þúsundir þátttakenda komu saman til að læra, deila þekkingu og kanna nýjustu þróun í iðnaðinum.


Mynd: Hér er verið að sýna hvernig sækja má varma í fráveitu og nýta í t.d. hitaveitu með einföldum varmaskipti.

 
Eimur nýtti tækifærið til að kynnast nýjungum á þessu sviði og heimsótti Karen meðal annars Golsteig ostaverksmiðjuna til að skoða vatnshreinsikerfi. Þar er vatnið hreinsað með efnafræðilegri og líffræðilegri hreinsun frá +5000 mg/l COD niður í 30 mg/l COD áður en vatninu er dælt í hreinsistöð bæjarins. Seyran er afvötnuð upp í +25% þurrefni og send í lífgas framleiðslu til frekari verðmætasköpunar, en fyrst eru mestu verðmætin (fitan) skilin frá og geymdi í tanki. Fitan er einnig send í lífgas framleiðslu, en þetta efni hefur töluvert hærra verðgildi og framleiðir mun meiri orku.


Mynd: Frá Goldsteig ostaverksmiðjunni. Vatnið hreinsað - seyran afvötnuð og fitan geymd í tanki.

Karen Mist hafði þetta að segja um þátttökuna: "IFAT er frábær vettvangur fyrir Eim til að efla tengsl við aðra lykilaðila í umhverfis- og vatnsstjórnunarheiminum og kynna okkur nýsköpun á því sviði, ræða nýjustu tækni, lausnir og hugmyndir á sviði umhverfistækni. Við erum afar ánægð með þátttökuna og hlökkum til að fylgja eftir þeim tækifærum sem sköpuðust."

Nánar um IFAT hér