9. apríl 2025

Samstarf og sjálfbærni í Sligo – Upphaf Nordic Bridge verkefnisins

 Nýtt evrópskt samstarf um nýsköpun og þekkingarmiðlun

Í síðustu viku var haldinn upphafsfundur nýs verkefnis á vegum Northern Periphery and Arctic (NPA) áætlunarinnar – Nordic Bridge – í borginni Sligo á Írlandi. Fundurinn var haldinn í Atlantic Technological University (ATU), þar sem um 10.000 nemendur stunda nám, og markaði formlegt upphaf þessa metnaðarfulla verkefnis.



Nordic Bridge miðar að því að efla tengsl milli háskólasamfélags, atvinnulífs og nærsamfélaga til að styðja við nýsköpun og sjálfbæra þróun á norðlægum svæðum. Eimur tekur þátt sem stuðningsaðili (e. associated partner), og fór Kolfinna María, markaðs- og nýsköpunarstjóri Eims, á fundinn ásamt samstarfsaðilum frá Íslandi, Noregi, Finnlandi og Írlandi. Meðal íslenskra þátttakenda eru SSNE og Háskólinn á Hólum.


Markmið Nordic Bridge er að bregðast við þeim áskorunum sem svæðin standa frammi fyrir – til að mynda skorti á samstarfi milli fræðasamfélags og atvinnulífs og vannýttum tækifærum til rannsóknar og þróunar. Kjarni verkefnisins felst í smíði stafræns samstarfsvettvangs þar sem opinberir aðilar, fyrirtæki og stofnanir geta sett fram áskoranir, markmið og raunveruleg verkefni sem rannsakendur og nemendur geta tekið þátt í að leysa – meðal annars með lokaverkefnum í samstarfi við stofnanir og fyrirtæki innan verkefnisins.

Nordic Bridge mun jafnframt styðja við alþjóðlegt rannsóknasamstarf milli háskóla í þátttökulöndum, sem gerir nemendum kleift að vinna að verkefnum yfir landamæri og takast á við raunverulegar áskoranir annars staðar á Norðurslóðum.

Ferðin til Sligo var afar vel heppnuð. Gestgjafar ATU tóku hlýlega á móti hópnum og buðu upp á áhugaverða kynningu á starfsemi og framtíðarsýn skólans, auk leiðsagnar um háskólasvæðið þar sem við fengum innsýn í fjölbreytt og öflugt skólastarf.


Þá heimsótti hópurinn einnig AIM Centre (Advancing Innovation in Manufacturing), nýja nýsköpunar- og rannsóknarmiðstöð á svæðinu sem tengir saman rannsóknir og atvinnulíf – og Future Cast, þar sem nýsköpun og sjálfbærar lausnir í byggingariðnaði eru í forgrunni. 


Eimur þakkar AIM Centre og öðrum skipuleggjendum fundarins kærlega fyrir vel skipulagða dagskrá og hlýjar móttökur í fallega bænum Sligo.


Deila frétt

17. október 2025
Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða (Nánari dagskrá verður birt þegar nær dregur) Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna
30. september 2025
Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.
11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi